Raunveruleikasjónvarp
Eins og eflaust allir hafa tekið eftir hafa svokallaðir raunveruleikaþættir tröllriðið heimsbyggðinni undanfarin misseri. Margt af þessu efni höfðar til mín en annað alls ekki. Hér að neðan ætla ég að fara yfir nokkra þætti og þar fyrir neðan verður svo skoðanakönnun um málið.
American Idol
Þessir þættir eru nú að ljúka þriðju vertíðinni í ammríku og hafa fengið gríðarlegt áhorf vestra. Ég er einn af mörgun aðdáendum þáttanna og að mínu mati er þetta svona hér um bil eina raunverulega raunveruleikasjónvarpið. Þættirnir búa yfir einhverjum töframætti, töframætti sem getur leitt sigurvegarann inn í ótrúlegt ríkidæmi og velmegun. Svo er Paula líka soldið sæt. Ég mótmæli hinsvegar algjörlega skrifum
Rósarinnar varðandi blikk Simons, mín vegna má hann blikka eins og hann vill en líkurnar á því að ég fái í hnén eru álíka og að Dianna DeGarmo sigri í þáttaröðinni.
The Block
Frekar flottir þættir um fjögur pör sem gera upp eina íbúð hvert í fjórbýlishúsi. Ágætis þættir, spurning um að slaufa Völu matt og taka upp svona í staðinn, það fær allavega mitt atkvæði. Það eina sem böggar mig varðandi þessa þætti er þessi leiðinda Ástrala snobb hroki sem tvö pörin búa yfir. hrollur.
The Bachelor
Funny Bob er genginn út og fékk í verðlaun hina íðilfögru Estellu. Lucky Bastard. Þessir þættir eru löngu útbrunnir og gera útá of mikinn sársauka fyrir minn smekk. Allt snýst um að fleka aumingja saklausa Bob sem svo í staðinn fær að losa um sadiskar kenndir sínar með því að senda heim skælandi ástsjúkar vergjarnar ammrískar stelpuskjátur. Ekki aðdáandi.
The Survivor
Ágætis þættir. Hafa að mínu mati lifað ótrúlega lengi og er það sennilega að miklu leiti þáttastjórnandanum að þakka, ég man reyndar ekki hvað hann heitir en það skiptir víst ekki öllu. Nú stendur yfir serían Survivor All star og hefur minn maður Rupert haldið velli enn sem komið er. Þetta eru góðir þættir þar sem að virkilega reynir á sál og líkama. Oft reyndar aðeins um of á sálina en þarna sjáum við kannski að kraftur snerpa og úthald eru ekki allt og að sama skapi að bókvitið verði ekki í askana látið.
The amazing race
Mitt uppáhald. Frábær skemmtun þar sem að tveggja manna lið æða um hnöttinn í leit að vísbendingum og endamarkinu sem inniheldur milljón dollarakall. Hér reynir á allt, útsjónarsemi, úthald, snerpu og kraft. Helsta ástæðan fyrir því að ég hef gaman af þessum þáttum er samt sennilega sú að þarna sér maður allskonar útkima heimsins sem maður vissi ekki einu sinni að væri til.
Joe Millionaire
Ömurlegur frá upphafi til enda.
Margir aðrir þættir eru á skjánum þessa dagana svo sem The Apprentice, Fear Factor og fleiri. Ég hef ekki sett mig inní þá þætti svo að ekki verður rætt frekar um þá.
Í heildina séð eru þessir þættir ágætis skemmtun, þeir verða hinsvegar oft leiðigjarnir og einhæfir. Margir hafa þá skoðun að þessi tegund sjónvarps sé lægsti punktur siðferðiskenndar mannkynssögunnar, ég er ósammála því. Þessir þættir eru einfaldlega eðlileg þróun og það sem meira er þeir gefa venjulegu fólki möguleika á að rísa úr öskustónni og sýna sig á skjánum.
Kveðja
Snæþór