Ég er mikill dreifari. Landsbyggðin er mitt heimasvæði og gæti ég hagsmuna þess sem mest ég má.
Þessvegna ætla ég að fara út það stórvirki að rita leiðarlýsingu leiðarinna Rkv-Ifj.
Haldið úr hlaði.
Ekið sem leið liggur úr landnámi Ingólfs upp nes kennt við kjöl og þaðan stungið sér hálfa leið til helvítis undir Hvalfjörðinn. Fátt markvert ber fyrir augu á þessum kafla ef undan eru skilin svínabú, vindblásin hússkrifli og kirkja sem jaðrar við að hrynja í sjóinn. Þar sem ekki er hægt að réttlæta það að kalla þetta úthverfi landsbyggð eða dreifbýli þá hef ég ekkert gott um svæðið að segja.
Frá hliðum helvítis í fordyri Strandamanna
Já, úr helvíti komast flestir og er tekið til við að aka til norð-austur sem leið liggur fram hjá nútíma gullnámunum á Grundartanga yfir flatneskju Leirársveitar þaðan sem ekkert gott kemur, ekki svo ég viti allavega. Eitt er þó markvert. Þegar nálgast tekur Borgarfjörðinn sést yfir grynningar miklar sem eru mest frægar fyrir það að vera legstaður skipsins fræga Purqua pa (stafsetning ?) sem fórst það fyrir margt löngu. Eftir þá sjón tekur við akstur undir mesta rokrassgat allra tíma, Hafnarfjall. Þá er komið að því, nú er ekið í gegnum stærstu stoppistöð hringvegarins, nesið sem ber nafn bæjar eins frægs og fagurs. Bærinn sem hefur hýst ekki ófrægari menn en feðgana Egil og Skallagrím. Í Borgarnesi er sund sem nefnist Brákarsund eftir eymingjans kerlingu sem Egill myrti þar forðum daga. Við tekur nú endalaus akstur upp annars ágætann Borgarfjörð, framhjá rúðunum þjóta fagrar lendur svo sem Svignaskarð, Laugaland handan árinnar, Bifröst og Hreðavatn. Fyrir ofan Hreðavatn eru tveir fallegir gígar sem mér hefur hingað til verið lífsins ómögulegt að draga frúnna mína uppá, Grábrók og Rauðbrók. Í fjarska má svo greina hið tignarlega Hvassafell og svo auðvitað Bauluna, tignarlegasta fjall Borgarfjarðar. Nú er ekið sem mest má í átt að Holtavörðuheiðinni og auðvitað staldrað að gömlum sið í Fornahvammi, síðasta bænum í dalnum.
Fátt gott er um heiðina að segja ekki nema þá að hún endar, glæsilegt fjall stendur þó á heiðinni efts og bar það stórbrotið nafn, Tröllakirkja líkt og nafn stórgóðrar bókar sem ég hef aldrei lesið eftir Ólaf Gunnarsson.
Að heiðinni lokinni er komið í fordyri Strandamanna.
Frá Brú norður til Andskotans!
Hér er best að spenna beltin, ekki blá ljós að sjá næstu 100 kílómetrana! Frá Brú (þar sem undirritaður dældi bensíni í nokkra daga einhverntímann í fyrndinni) er ekið norður Bæjarhrepp, hreppur þessi er sennilega frægastur fyrir það að ég bjó eitt sinn í honum! hahaha. Í hreppnum miðjum er Borðeyri, kennd við borð eitt sem Ingimundur Gamli á að hafa rekist á hérna fyrir sirka 1100 árum, borðið má sjá á Byggðasafni bæjarhrepps. Á Borðeyri bjó ég til margra ára og sleit þar nokkrum barnskóm. Þegar ekið er í egegnum hreppinn er mjög ráðlegt að líta til himins sem mest því að talsverðar líkur eru á að sjá þar Örn á flugi, fátt markvert er annars í þessum hreppi, bæjarnöfn eins og Kjörseyri, Hlaðhamar (bæði eiga þau nafngiftina Ingimundi Gamla að þakka) og svo hinir fögru Ljótunnarstaðir frussast framhjá bílrúðunni. Við tökum nú stökk undir okkur yfir í Bitrufjörð og Kollafjörð, hvorugur fjarðanna hefur uppá neitt að bjóða, báðir litlir og ljótir. Á milli þeirra er þó hinn skemmtilegi háls Ennis, en það er leiðindafjallvegur. Þegar loks er komið útúr Kollafirðinum kemur ljómandi fjörður sem nefnist Steingrímsfjörður, ekki hef ég hugmynd um hver sá streingrímur er en í hjarta fjarðarins er kauptúnið Hólmavík, þar ríður rækjum enginn annar en Andskotinn sjálfur, Jón Andskoti.
Þjóðvegur 66 Hólmavík - Djúp - Ísafjörður. Síðasta útkall allir í bátana!
Þá er að þrusa af stað fyrir Steingrímsfjarðarheiðina. Hér væri vel til fallið að setja Cate vinkonu mína Bush í djúkboxið og hækka í botn! Wuthering Heights here i come! Fáir fjallvegir á Íslandi eru jafn skemmtilegir og einmitt þessi, flöt, brött, löng, lág, allt malbikað og gefið hraustlega í. Hér komum við í þá sveit þar sem öll örnefni eru á reiki, er það Lágidalur eða Langidalur, Hattadalur eða Kattadalur, hver veit? Fyrstur er það Ísafjörðurinn sjálfur, langur en malbikaður, stórgóður vegur enda frægur um allt land fyrir það. Ástæðan, jú það var Héraðsverk frá Egilsstöðum sem lagði þennann stórgóða veg. Svo er valið, á að fara út fyrir og koma við hjá tengda ömmu og afa í Reykjafirði eða skella sér yfir Eyrarfjallið, í þetta skiptið skulum við skella okkur yfir fjallið. Við tekur Mjóifjörður, mjór og temmilega langur en það sem þá tekur við er hreint helvíti á jörð. Sjálft Ögurnesið, lengra en að fljúga til Bandaríkjanna, ég get svo svarið það. Nokkrir ljósir punktar eru þó á leiðinni. Á móts við nesið er sögurfrægur staður Kaldalón þar sem að Sigvaldi nokkur bjó til margra ára, hér er einnig eina GSM sambandið allt frá Hólamavík til Súðavíkur.
Eftir nesið langa tekur við Skötufjörðurinn, langur, brattur, ægilegur, en malbikaður. Síðan bregður maður sér fyrir Hvítanesið þar sem að gamli bíllinn minn lauk velti sér á bakið niður í fjöru, tek fram að ég var ekki bílstjóri, þeir taki það til sín sem eiga það. hehe Nú erum við nánast komin á leiðarenda brunum inn og út Hestfjörðinn kenndur við Hestinn, mikið fjall Hesturinn, undir hestinum er einmitt fæðingarstaður Ólafs Ljósvíkings sem allir kannast við úr Heimsljósi nóbelskáldsins. Stökkvum yfir í Seyðisfjörðinn örstutta komum þá í Álftafjörð þar sem sem hin nýbyggða og glæsilega Súðavík stendur, héðan kemur hinn merkilegi maður Þorvaldur Víðförli, bjó á Svarthamri ef minnið svíkur ekki. Höldum áfram út Áltafjörðinn í gegnum elstu jarðgöng Íslands frá 1949 og brunum inn Skutulsfjörðinn. Leiðarendi.
Já svona er hún. Leiðin góða Rek-Ifj. Ég hvet alla, já ég segi alla til að kíkja á þessa skemmtilegu leið. Nóg að sjá og skemmtilegir vegir.
Áfram landsbyggðin!
Kveðja
Snæþór