Skítlegt eðli
Ó já, það hefur verið staðfest. Áður var það eiginlega bara grunur, óstaðfestur, nagandi grunur, grunur um hvað segiði, jú grunur um að ekki bara nokkrir heldur stór hluti íslenskra ráðamanna hafi skítlegt eðli. Kannski ekki svona dags daglega en þó allavega einhversstaðar í handraðanum, svona meira til að geta dregið fram þegar allra síst skyldi og þegar það hefur sem verst áhrif á sögulega mynningu þeirra.
Ég var oft búinn að velta fyrir mér möguleikunum sem í stöðunni voru og búinn að komast að tveimur niðurstöðum. Báðum gríðargóðum. Annar var að fara í þjóðaratkvæðið og setja reglu um að 25% kosningarbærra þyrftu að hafna lögunum, nú eða að 50% þjóðarinnar þyrftu að mæta á kjörstað. Fyrir glögga lesendur þarf auðvitað ekki að útskýra að þetta er nákvæmlega sama leiðin. Hin leiðin sem mér fannst heldur síðri fyrir þjóðina en skárri fyrir flokkinn var að draga frumvarpið til baka og hugsa málið allt heldur betur.
Nú jæja, ekki hlustuðu ráðamenn á mig í þetta skiptið frekar en fyrri daginn.
Það mætti eiginlega halda að sumir átti sig ekki á því að allt sem þeir segja, kunni og muni verða notað gegn þeim í hringleikahúsi almenningsálitsins. Tökum dæmi, formaður og varaformaður flokksins lýstu því yfir fyrir og um helgina að lögin færu fyrir þjóðina, annað væri brot á stjórnarskrá. Björn Bangsímon Bestaskinn Bjarnason lýsti því yfir að það að draga lögin til baka væri brella og eitthvað sem væri ekki beint siðlegt fyrir um mánuði. Hvar eru þessi ummæli í dag. Hversvegna spila þessir menn sig endalaust sem ómerkinga? Hvernig væri nú til tilbreytingar að koma hreint fram. Koma fram fyrir þjóðina og segja hlutina eins og þeir eru!?
Skvísan spurði mig áðan frábærrar spurningar. "Hvað hefur Davíð eiginlega á Halldór?" Ég tek undir þessa spurningu! Hvað hefur Davíð á Halldór sem veldur því að Halldór sendir flokkinn trekk í trekk í gin úlfsins, skipar fylgi flokksins í almenningsaftöku! HVAÐ ER AÐ!
Hvernig má það vera að þessi lög séu svona mikilvæg?
Geir H. Haarde var í Kastljósi í kvöld með Steingrími J. Sigfússyni og ég verð bara að segja að sjaldan hef ég séð aðra eins steikingu. Það var hverju mannsbarni ljóst að Geir hafði engin svör, hann hafði ekki einu sinni skæting. Dóttir mín, þriggja ára spurði. Hvaða maður er þetta sem er að fara að skæla?
Jæja, nú er nóg blásið. Ólafur Ragnar Grímsson, ef þú færð þessi ólög í hendurnar til undirskriftar þá treysti ég á þig, þú skrifar ekki undir þessa vitleysu, með því móti gerir þú sjálfan þig að ómerkingi. Í það minnsta í mínum augum.
Kveðja
Snæþór