KAUPFÉLAGIÐ...........
Viðskiptamenn

- Sú heittelskaða
- Heimaslóðir
- Skotta
- Kobbi græni
- Kiddi Trommbomm
- Surturinn
- Hin fimm fræknu
- Eddarnir
- Upp til Heiðars
- Bombalombalom
- Gummi Markaður
- Sannleikurinn?
- Vinnan
- Slappur
- SUF


Sendu mér mail!

[Í kaupfélaginu kennir ýmissa grasa, ég sá sem rita undir allar greinarnar er stjóri hér og þær skoðanir sem koma fram eru yfirleitt mínar. Ef þér finnst ekkert spennandi í hillum kaupfélagsins, þá ert þú, kæri, kæra. Á rangri hillu í lífinu, allavega þó á rangri síðu.]

Myndir

- Glamúr shots
- Arndís árið
- Landslagið
- Eurovison um árið
- SUF á Álandi
- Mörkin 2004
- Esjan með Valla
- Hvannadalshnjúkur!!
- Mörkin 2006


Hér er ýmislegt að finna, bæði gott og vont, njótið!

20050628

Fjöllin hafa vakað í þúsund ár.....

Daginn lesendur.

Til að byrja með vil ég biðjast afsökunar á síðasta pistli.

En... nú eru ekki nema 3 dagar í Mörkina fögru og grónu. Veðurspáin er frábær, allavega fyrir lau og sun. Ekki alveg nógu góð spá fyrir gönguna yfir hálsinn en það lagast. Ég er annars ennþá slæmur í hálsinum, það lagast líka.

....ef þú rýnir inn í bergið sérðu glitra' á tár

Höfum við eitthvað til að vera döpur yfir í dag... nei, allavega ekki í kaupfélaginu. Í kuffélaginu er tóm gleði, sólin skín og allt það. Talsvert markvert í gangi og engin tár. Allt eitthvað voða kósý ;) Fyrir þá sem það skilja.

Orð þín kristaltær, drógu mig nær og nær...

Sjáið myndina hér til hægri, þetta er hin íðilfagra Katie Melua, sem syngur frábært lag þessa dagana, The closest thing to crazy, þetta er langmest selda smáskífan í kaupfélaginu þessa dagana. Seiðandi, satt og gott.

...ég reyndi að kalla á ástina sem úr dvalanum reis í gær.

Já, þetta er gott lag, Bubbi stendur sig yfirleitt vel, nema kannski þessi síðustu ár, hann á reyndar samúð mína alla og stuðning útaf þessu bulli í nýjasta sorpriti íslendinga. Tek það fram að Hér og nú er ekki selt í Kaupfélaginu.

Að lokum verð ég að þakka El Dorado kærlega fyrir þessa ágætu ljósmynd af gömlu höfuðstöðvum kaupfélagsins á Skagaströnd, hún er þarna ---->>>

Kveðja
Snæþór
snowymcice. Get yours at bighugelabs.com/flickr

20050627

Kærö vener.

Svona sögðu þeir fyrir austan í þá daga. Pistill dagsins er semsagt tileinkaður flámæli.

Og hefst þá lesturinn:

"Flámæli lifði góðu lífi sunnan til á Austfjörðum á síðustu öld, en er mjög á undanhaldi eða horfið að mestu. Eigum við að sakna þess? Menn spurðu hvort rita ætti opið eða lokað e, - e átti að rita lokað og með punkti í orðum eins og venur og selungur. Enn finnst fólk á árbókarsvæðinu sem kannast við eða er munntamur gamli framburðurinn með r í víði-örnefnum eins og Víðirnes og Víðirdalur. Af hellra-örnefnum er mýgrútur og r-ið skýrt í framburði eldra fólks."

Þessi áhugaverði pistill er brot af miklum söguþætti Hjörleif Guttormssonar um stað- og þjóðhætti á Austurlandi.

Kveðja
Snæþór

e.s. þeir sem ekki hafa nokkurn einasta áhuga á að sjá svona pistil framar hér í Kaupfélaginu eru vinsamlegast beðnir að smella því í komment.
snowymcice. Get yours at bighugelabs.com/flickr

20050621

Tilraun til skrifa að morgni dags

"Þetta hefur aldrei tíðkast í kaupfélaginu"

"Er kallinn loksins orðinn bilaður"

"Guðmundur, það er farið að snjóa"

"Pabbi, klósettpappírinn er búinn"

Já, þessar og margar fleiri tilvitnanir fljúga fyrir utan kaupfélagið þegar furðu lostnir íbúar í plássinu sjá að það er verið að opna það fyrir klukkan átta! á þriðjudagsmorgni. Ástæðan, já svosem engin önnur en sú að það var spurning fyrir kallinn í brúnni að já annaðhvort að hengja uppúr þvottavélinni nú eða að setjast örstutt við tölvuna og láta lyklaborðið finna fyrir því.

Síðari kosturinn var af augljósum ástæðum valinn, strákar, þið skiljið hvað ég á við.

Ég verð bara að segja nokkur orð um nýjasta raunveruleikafirtaþáttinn sem hóf göngu sína á Stöð tvö í gær. Extreme makeover home edition í upphafi hélt ég að hér væri að hefjast einhver skelfilegur þáttur þar sem óheppnir ammríkanar yrðu teknir í lýtaaðgerð, heima hjá sér. En nei, til allrar guðs lukku var það nú ekki raunin. Hér var í raun á ferð ansi hreint góður þáttur, fjölskyldan rekin til bahamas í eina viku á miðan 7 léttgeggjaðir hönnuðir rifu húsið nánast til grunna og endurbyggðu það með 50 manna verktakaher. Flott hugmynd og skemmtilega uppsett.

Annars er það fátt annað sem spjallað er um í kaupfélaginu. Dömurnar eru að raða upp í hillur svona fyrir átök dagsins, eitthvað smá vandamál er í öðrum búðarkassanum, færibandið fer of hratt, aumingjans Gróa á Leiti lenti illa í því í gær þegar bandið bilaði og einn eggjabakki þeyttist í hnakkann á henni. Hún átti þetta kannski bara skilið. Tuðran.

Góðar stundir

Kveðja
Snæþór
snowymcice. Get yours at bighugelabs.com/flickr

20050619

Kvöldið góðir gestir

Lalalalalala lalalalala lalalala lalalalalalallalal alalalal yeaaahhhhh (sungið með rámum rómi)

Þetta er getraun dagsins, þ.e. hvaða lag var þetta?

En jæja vinir og kunningjar, kæru gesti kaupfélagsins hæ hó jibbý jei og jibbý jei það var kominn sautjándi júní. Nú loksins með sól og blíðu og 17 stiga hita. Það er einmitt sami fjöldi bjóra og ég drakk samtals á fimmtudags og föstudagskvöldið, já það var gaman á fim og fös, matur með fjölskyldu kenndri við KRÚTT á fimmtudagskvöldið og síðan ánægjulegt símtal sem endaði niðrí bæ og svo meiri gleði með Selnum og Siliconknúsaranum á föstudagskvöldið. Sama kvöld var svo Skipholtið vígt með pompi og prakt, bæði prófað að fara í hornbaðkarið og sofið fram á laugardag í nýja svefnherberginu.

En nóg af djamminu kíkjum aðeins á pólitík.

Það er alveg með ólíkindum hvað málefnaþurð stjórnarandstöðunnar getur rekið hana út í mikla þvælu og skítsemi. Held það sé kominn tími á marga í minnihlutanum að líta aðeins á sjálfan sig í speglinum og spá í hvort að þetta sé virkilega það sem þeir vilja, hvort þetta sé málflutningurinn sem þeir vilja vera þekktir fyrir á spjöldum sögunnar. Íslensk pólitík hefur blessunarlega verið laus við svona skítsemi að mestu leiti þessi ár sem ég hef fylgst með henni. Höldum henni þannig, ræðum málin á skynsamlegum og málefnalegum nótum. Það næsta sem ég bíð eftir er að sjá fréttir af því að Kolbrún Halldórs og Helgi Hjörvar séu í varðhaldi eftir að hafa slett skyri á Halldór Ásgríms.

Ég ætla ekki að tjá mig um Evrópumál á þessum miðli nú næstu vikur þar sem að ég einfaldlega skil ekki nákvæmlega hvur djöfullinn er í gangi. Það allavega lítur út fyrir að menn séu ekki alveg sammála en bíðum samt bara, Evrópa á eftir að styrkjast á endanum aftur, við munum ganga í sambandið og Útópía verður til ;-)

Jæja, fleira verður það ekki að sinni, þetta var dapurlegur og lélegur pistill. Kaupfélagið er frekar þurrt þessa dagana og lítið í hillunum.

Góðar stundir.

Kveðja
Snæþór
snowymcice. Get yours at bighugelabs.com/flickr

20050614

Kvöldið

Nýjar fréttir, já ferskar fréttir. Það er alltaf eitthvað að gerast í plássinu og hvar er betra að hlusta á slúðrið en einmitt í Kaupfélaginu.

Það heitasta í dag er auðvitað að Kaupfélagsstjórinn er búinn að ganga frá kaupum á nýjum kaupfélagsstjórabústað. Sagan segir hinsvegar að hann ætli að fá óðmenn að austan til að mölva niður svona eins og einn vegg áður en flutt verður inn þannig að þeir sem búnir voru að taka frá helgina til að láta vaða í flutninga verða víst að borga sinn bjór sjálfir þessa helgina. Framkvæmdum í slotinu ættu að ljúka ekki síðar en á fimmtudag í næstu viku þannig að nú er tímasetning á flutninga sett á fös/lau í næstu viku. Ath, enginn að reyna neitt á bakið á næstunni! Ekki þú heldur framsóknarKRÚTT!

Hvað er annars málið með hann Wacko Jacko? Já og ameríska réttarkerfið? Umræðan í kaupfélaginu er á þá leið að kanarnir einfaldlega geti ekki sakfellt fræga menn. Í hverjum og einum kviðdómi virðast vera einhverjir sem teljast geta aðdáendur þessara manna og því fer sem fer, alltaf sleppa þeir. Þrátt fyrir blóði drifna hanska, flótta undan réttvísinni á hvítum bronco-um og sóðalega upptökur. Ég er reyndar ekki að segja að Jacko sé sekur en hann hefur án efa gert eitthvað heimskulegt....mjög heimskulegt.

Hvað er annars að frétta góða fólk?

Kveðja
Snæþór
snowymcice. Get yours at bighugelabs.com/flickr

20050612

KOMIÐI NÚ SÆL ÖLL SAMAN!

Já það er nú aldeilis komið að því. Eftir talsverðar breytingar, nokkrar tafir hjá verktökum, gjörsamlega endurskipulagningu á hausamótunum og aðstæðum þá er það hér komið, já það er sko komið, Kaufélagið er endurfætt. Það reyndar gleymdist að mála það en það kannski kemur seinna.

Fyrst kemur hér ein tilkynning.

Já, það er semsagt þannig að stærsta breytingin í Kaupfélaginu er sú að nú er Kaupfélagsstjórinn orðinn maður einsamall. Ríflega átta ára samstarfi við Skvísuna er lokið. Einhver sagði mér að einhverntímann þurfi allir góðir hlutir að enda og já ætli það sé bara ekki rétt hjá honum. Við skulum ekki ræða þetta frekar hér.

Reyndar, í framhaldi af því sem stendur hér að ofan mun Kaupfélagsstjórinn flytja búferlum og hefur nýjum höfuðstöðvum verið valinn staður að Skipholti 26. Allir sem vetlingi geta valdið eru vinsamlegast beðnir að rífa upp vinnuhanskana og hjálpa til við flutning sem sennilegast mun eiga sér stað í lok þessarar viku. Vinnulaun eru slatti af ísköldum öl. Já ég skal sko segja ykkur það, bjór er seldur í kaupfélaginu!

Helgin var lífleg, föstudagsdjammið byrjaði á því að einn harðsvírasti landkrabbi þjóðarinnar, jábbs kaupfélagsstjórinn sjálfur, þrammaði upp landganginn á hinu stórkostlega fleyi Eldingu. Hin ljúfa barþjónka Eva María bauð þó uppá sjómennsku í töfluformi, aka svóveikistöflur, sem gerðu það að verkum að sjaldan hefur annar eins sjómaður stigið ölduna og hinn áður harðsvíraði landkrabbi. Tek það þó fram að framleiðendur þessarar töflu hafa gleymt að setja í hana hæfileikann til að veiða fisk og því fengu þeir að synda um á hafsbotni í friði. Þegar í land var komið var svo tekið til við að skoða nokkur öldurhús borgarinnar ásamt hinum ýmsu öngstrætum.

En jæja já, laugardagurinn fór svo í að ná sér, eða þar til haldið var til glæsilegrar veislu til Unnar framsóknarKRÚTTS eiginkonu sem er nú komin í tölu mentaðra manna/kvenna, til hamingju með það Unnur! Síðan var tekið á hinum ýmsu viskíum, allt frá 12 - 22 ára í boði Selsins sem stóð sig með stakri prýði. En nóg af því.

Já eins og ég sagði þá er Kaupfélagið vaknað til lífsins, í fyrstu verður það nokkuð líkt því sem áður var, pólitík, smásögur, ljóð, matreiðsluþættir og svo auðvitað hinn almenni pirringur út í náungann. Sem fyrr verður þó að sjálfsögðu allt á alvarlegu nótunum.

En annars.

Lifið heil

Kveðja
Snæþór
snowymcice. Get yours at bighugelabs.com/flickr