Fimmvörðuháls
Sem fyrr greinir gekk ég ásamt miklu liði VÍSara yfir hálsinn frá Skógum undir Eyjafjöllum að Strákagili í Þórsmörk um helgina. Ég ætla nú í örfáum orðum að lýsa þessari stórkostlegu leið að hætti Kaupfélagsins.
Fyrsti hluti Skógar - Vað
Allir út úr rútunni og AF STAÐ! Fyrsta verkið er auðvitað að tékka á öllum búnaðnum.
- Suðusúkkulaði...check
- Vatnsbrúsi...check
- Bakpoki...check
- o.s.frv...check
Frá búnaðartékki tekur við erfiðasta brekka leiðarinnar, Kvennabrekkan illræmda, reikna með því að nafnið komi til af því að fæstar konur hafa það af að komast upp
þessa brekku sökum þróttleysis og veimiltítuháttar. hehe
Nóg af rembunni. Allir komust nú upp og af stað var haldið....HEI SJÁIÐI FOSSINN...HEI FOSS...FOSS...foss...(muldur, enn einn helvítis foss) Þetta er svona í fáum orðum leiðin frá Skógafossi, framhjá Kæfufossi, veitekkifossi, hittogþettafossi, Gluggafossi og núerkomiðnógfossi. tíhí. Mjög falleg leið engu að síður. Ég týndi tölunni á fossunum þegar ég var kominn uppí 632 en mér skilst að þeir séu um fjórtán þúsund.
Annar hluti Vað - Fimmvörðuháls
Hér tekur við leiðinlegasti hluti leiðarinnar. Þ.e.a.s að hér er ekkert að sjá nema urð og grjót upp í mót, ekkert nema urð og grjót. Þar að auki var hér leiðinlegasta veður ferðarinnar, þ.e. ekki nema 23 stiga hiti og sólskin. Frábært samt að Útivist skuli bjóða uppá þá þjónustu að fáklæddar yngismeyjar veiti fótnudd og skenki köldum bjór. Það koma virkilega á óvart. Húrra fyrir Útivist.
Tek það þó fram að þó að leiðin heiti Vað - Fimmvörðuháls að þá er hér um að ræða brú.
Þriðji hluti Fimmvörðuháls - Strákagil
Hér tekur aldeilis við fallegasta leið landsins. (að undanskilinni göngunni í Stórurð) Þegar hálsinum sleppir fer Þórsmörkin að opnast fyrir fótum göngumanna, fannirnar fara minnkandi, brakið í jöklunum liggur í loftinu og kyrrðin ærandi. Mest spennandi hluti leiðarinnar er svo að sjálfsögðu leiðin niður Bröttufönn. Þar sest maður á botninn og lætur sig gossa 150 metra leið niður snarbratta fönn, gaman saman. Ekki minnkar spennan þegar kemur að Heljarkambi þar sem að maður þarf að sveifla sér utan í klettavegnum til að ná yfir 40 metra breiða gjá, já hér er ekki staður fyrir kettlinga. Best að loka bara augunum og tromma dudududu dududu dudududu dudu duu duu duu (þema lagið úr Indiana Jones). Við tekur Morrinsheiði, slétt og fögur, kennd ef ég man rétt við útlending nokkurn, Morrins að nafni. Leiðin þaðan er fríð og skemmtileg, bein leið í Strákagil eftir hinum spennandi Kattarhryggjum þar sem betra er að skrika ekki fótur því annars er dauðinn
VÍS.
Halelúja! Komin í Strákagil þar sem að Kuffélagsstjórinn tryggði sér öruggt þriðja sæti í göngunni með því að skeiða framúr
Rósinni á síðustu sprettunum......þurfti nú svo sem ekki mikinn sprett til en þó aðeins þar sem að Rósin reyndi sem mest hún mátti að hafa af mér bronsið, án árangurs.
Annars mæli ég með því við alla að skella sér bara í Mörkina, hvort sem vera skal á bíl eða gönguskóm. Set hér mynd af
Kuffélagsstjóranum að lokinni göngunni.
Kveðja
Snæþór